Höfundar: Helga Marín og Ingrid Kuhlman. Febrúar 2023
Eitt af mikilvægustu hlutverkum kennara er að spila inn á áhugahvöt nemenda til að þeir nái árangri í námi. Verðlauna- og refsikerfi eru dæmi um ytri hvatningu sem er mikið notuð í skólum og uppeldi. Þótt ytri hvatning geti verið áhrifarík til skamms tíma virkar hún lítið sem ekkert til að auka áhuga nemenda á náminu. Ytri hvatning dregur frekar úr áhuga og hafa margar rannsóknir sýnt fram á að hún geti jafnvel bælt niður innri áhugahvöt.
Við erum öll fædd með innri áhuga á að læra og það er hægt að virkja þessa áhugahvöt aftur með ákveðnum verkfærum.
Ingrid Kuhlman og Helga Marín hafa um árabil sérhæft sig í að miðla þekkingu fyrir vinnustaði, skóla og aðra hópa, m.a. með námskeiðum og fyrirlestrum.
Helga segir frá reynslu sem var upphafið að áhuga hennar á að innleiða innri hvatningu í skólana.
„Fyrir nokkrum árum síðan settist ég aftur á skólabekk 20 árum eftir að hafa lokið BA í bæði sálfræði og heilsufræði. Ég fór í meistaranám í háskólanum til að bæta við mig þekkingu og öðlast frekari færni í starfi.
Ég hef unun af því að læra og því beið ég spennt eftir að byrja námið. Sú spenna og gleði var ekki langlíf og fljótlega upplifði ég áhugann á náminu byrja að dvína. Ég minnist eins áfanga sem mér þar sem ég gat ekki haldið athyglinni í kennslustundum. Ég var farin að halda að ég væri með svona mikinn athyglisbrest þegar ég tók eftir því að allir samnemendur mínir voru með ýmsa vefmiðla opna og voru ekkert að fylgjast með. Ég var greinilega ekki sú eina sem átti erfitt með að halda athyglinni.
Í allri sanngirni verð ég að segja að það voru nokkrir áfangar sem mér fannst virkilega gagnlegir og skemmtilegir en þeir voru færri en þeir áfangar sem ég strögglaði í gegnum.
Fljótlega tók ég eftir því hvernig námið fór að snúast meira og meira um að fá hátt á prófum en að afla mér þekkingar. Ég stóð sjálfa mig að því að vera að læra undir próf í staðinn fyrir að læra fyrir sjálfa mig. Pressan fór að gera vart við sig og ég upplifði svo kallað „deja vu“ þegar ég horfði til baka og minntist þess að hafa upplifað mikla pressu og vanlíðan í skólanum þegar ég var yngri.
Ég tók ákvörðun, skítt með þessi próf hugsaði ég, héðan í frá ætla ég einungis að lesa og læra það sem ég hef áhuga á þótt ég fái lélegar einkunnir. Ég ætla að læra fyrir mig, ekki fyrir próf. Það sem kom verulega á óvart var að með breyttu hugarfari hækkuðu einkunnirnar í staðinn fyrir að lækka.
Ég velti því mikið fyrir mér hvað gerði suma áfanga skemmtilega og aðra leiðinlega en það var ekki fyrr en ég fór í jákvæða sálfræði að ég uppgötvaði hver lykillinn væri. Þeir kennarar sem kenndu „skemmtilegu“ áfangana í háskólanum nýttu innri hvatningu í miklum mæli á meðan þeir sem kenndu „leiðinleg“ áfangana nýttu enga hvatningu eða ytri hvatningu.
Þessi uppgötvun varð til að ég fylltist áhuga á að kenna hvernig nýta megi innri hvatningu í kennslu og fékk ég í lið með mér Ingrid Kuhlman.“
Her er munurinn á ytri og innri hvatning?
Það eru til tvær tegundir hvatningar sem knýja okkur til að gera eitthvað, ytri og innri hvatning. Sú ytri er knúin áfram af ytri þáttum eins og verðlaunum, viðurkenningu, þrýstingi eða hegningu frá öðrum. Gott dæmi um ytri hvatningu í skólum er þegar nemandi lærir til að ná prófunum eða til að fá háar einkunnir.
Innri hvatning vísar aftur á móti til þess að taka þátt í einhverju vegna þeirrar lífsfyllingar sem athöfnin hefur í för með sér. Dæmi um innri hvatningu í skólum er þegar nemandi lærir af því að hann hefur áhuga á námsefninu eða sér tilgang með því að læra það.
Af hverju innri hvatning?
Innri hvatning ýtir undir sjálfbærni og leiðir til meiri sköpunar, ánægju og vellíðanar. Því getur innri hvatning stuðlað að ævilangri lærdómsást. Þótt ytri hvatning geti stundum þjónað mikilvægu hlutverki, getur hún haft neikvæð áhrif ef hún er eina aðferðin sem beitt er og í ákveðnum aðstæðum getur hún jafnvel dregið úr innri áhugahvöt.
Ytri hvatning getur dregið úr innri hvatningu
Ingrid var eitt sinn fengin til að vera með námskeið í skóla þar sem nýlega hafði verið sett af stað átak til að bæta umgengni. Átakið gekk út að bekkirnir kepptu sín á milli og fengu stig fyrir ákveðna hegðun sem snéri að umgengni. Meðan á keppninni stóð umbreyttist skólinn og nemendur gengu svo langt að skúra gólfin til að vinna sér inn stig. Átakinu lauk og var starfsfólkið vongott um að átakið myndi bæta umgengnina í skólanum til frambúðar. Svo var ekki og þeim til mikillar mæðu versnaði umgengnin mikið og var mun verri en hún hafði verið fyrir átakið.
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á hvatningu og svo virðist að þegar ytri hvatning er nýtt til að hafa áhrif á hegðun sem okkur er eiginleg eins og til dæmis að hafa hreint í kringum okkur eða sýna góðvild og hjálpsemi í garð annarra, virðist sem ytri hvatningin dragi úr eða bæli niður þá innri hvatningu sem til staðar er. Þegar ytri hvatinn er tekinn í burtu hverfur hegðunin.
Grunnkólinn Nú býður kennurum og foreldrum upp á frítt námskeið í skólanum í samstarfi við greinarhöfunda 2. mars kl. 16.30-17.45. Þar verður farið í verkfæri til að kveikja á áhugahvöt nemenda og hvernig nýta megi þau í auknum mæli í kennslu og uppeldi. Frekari upplýsingar er að finna hér: http://helgamarin.com/upcoming-events/